banner

Nýsköpun - Íslensk vísindi

29.09.09

Sýningar hefjast í kvölddagskrá Sjónvarpsins 1. október.
Umsjón: Ari Trausti Guðmundsson
Framleiðandi og stjórnandi: Valdimar Leifsson/LÍFSMYND
Hljóðvinnsla: Jón S. Kjartansson

1. þáttur: Hamingjan og Íslendingar, Auður úr hafi, Rafstraumur til hjálpar
Í fyrsta þætti er sagt frá hvernig nota má sjó og jökulvatn til þess að framleiða raforku, frá rannsóknum á því hvað gerir Íslendinga að einni hamingjusömustu þjóð veraldar skv. könnunum og hvernig fatlaður vísindamaður tekur þátt í verkefni til að ná betra valdi yfir fingrum sínum með því að nota rafstraum.
2. þáttur: Siglt yfir Norðurpólinn? Hvað gera veiðarfæri í sjó? Baráttan gegn leghálsmeinum
Í öðrum þætti er fjallað um hugsanlegan þátt Íslendinga í vöruflutningum yfir norðurskautshafsvæðið, um rannsóknir á virkni og áhrifum veiðarfæra í sjó og um árangur í bráttunni gegn skæðu krabbameini og nýjar uppgötvanir um orsakir þess.
3. þáttur: Svarta gullið – hvar er það? Mentor, Gráðugar bakteríur
Í þriðja þætti er farið í saumana á olíuleit norðaustur af Íslandi, fjallað um fyrirtæki sem hefur náð miklum árangri í tölvuheimi skóla og skólastarfs og um hveraörverur sem geta aðstoðað Íslendinga í orkumálum.
4. þáttur: Jörðin suðar, Hvernig eldumst við? Íslenskir bermugarðar
Í fjórða þætti fylgjumst við með jarðvísindamanni hlusta jörðina og lesa mikilvægar upplýsingar úr mæligögnum, kynnumst öldrunarrannsóknum á heimsmælikvarða og íslenskri hönnun sem gerir hafnir öruggari en ella og er flutt út til margra landa.
5. þáttur: Íslenskur geimjeppi ,Hvernig líður jöklunum? Leyndar leiðir vatnsins
Í fimmta þætti fylgjum við nemendum sem búa til sjálfvirka, litla geimjeppa, könnum hvernig íslenskum jöklum reiðir af við hlýnun veðurfars og hvernig Orkuveita Reykjavíkur fer að því að tryggja að alltaf sé kalt vatn í krönunum.
6. Þáttur: Impra og uppfinningamennirnir, Huldar lendur, Fatlaðir og samfélagið
Í sjötta þætti heimsækjum við snjallan uppfinningmann á Akureyri sem tengist frumkvöðlasetrinu Impru, fylgjumst með hvernig sérfræðingar nota fjölgeislamæli til að kanna sjávarbotn og með athugunum á högum fatlaðra.
7. Þáttur: Blítt er undir björkunum, Ekkert straumleysi – takk, Skinnhandritin – hvað leynist í þeim?
Í sjöunda þætti er farið í heimsókn til Landgræðslunnar, útskýrt hvernig menn tryggja að alltaf sé raforka til staðar í flutningskerfinu og rýnt í gömlu, frægu handritin með tveimur sérfræðingum Árnastofnunar.
8. Þáttur: Eldvirkni og veðurfar, Steypa sem stál, Enginn er eyland
Hér er sagt er frá því hvernig lesa má sögu eldgosa í landinu úr gömlu seti í stöðuvötnum, frá þróun steinsteypu og nýju þekkingarsetri og frá því hvernig stjórnmál, rannsóknir og upplýsingar fléttast saman við að efla almenna heilsu.
9. Þáttur: Krabbamein og genarannsóknir, Margt býr undir jökli, Sælkeramatur
Í níunda þætti fræðumst við um framfarir í rannsóknum á krabbameini og könnun á því hvað dylst í jarðhitavatni undir Vatnajökli og hvernig það hleypur fram, ásamt rannsóknum og þróunarstarfi sem hafa gert bleikjueldi vel heppnað hér á landi.
10. Þáttur: Bætt mannlíf? Jurtaríkið til aðstoðar, Lónið, aurinn og við, Spæjaraforrit fyrir Netið
Eitt er að hanna og grafa jarðgöng en annað að kanna félagsleg áhrif þeirra. Því eru gerð skil í tíunda þætti ásamt því hvernig jurtaríkið getur minnkað kolefni sem við skilum út í andrúmsloftið og hvað gert er til að takmarka sandfok þegar lágt er í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar. Loks fáum við að sjá og heyra um nýtt forrit sem leitar að ólöglegu myndefni á Netinu.
11. Þáttur: Aukin lífsgæði – sem lengst, Fagur fiskur í sjó, Jarðskjáftar við Upptyppinga
Ellefti þátturinn er helgaður þremur efnum. Hvað er gert hjá Hjartavernd til þess að auka lífsgæði fullorðinsáranna? Hvernig meta fískifræðingar stærð fiskistofna? Er eldgos í aðsigi nálægt Upptyppingum?
12. Þáttur: Ferðast til að borða, Repja, vélar og hreinn útblástur, Kolefni er ekki bara svart, Augnþrýstingur og aldur
Þáttaröðinni lýkur með fjölbreyttum þætti um rannsóknir sem leiða til svokallaðrar matarferðaþjónustu, um íslenska dísilolíu úr jurtum, förgun kolefnis úr jarðhitagasi með því að binda það í jörðinni og rannsóknir á erfiðum augnsjúkdómi, gláku.